Categories
Fréttir

Fyrirlestur um fræsöfnunarleiðangra

Kæru félagar

Þann 11. febrúar n.k. ætlar stjórn/endurmenntunarnefnd Skógfræðingafélags Íslands ætlar að gera smá tilraun við að halda úti félags-/fræðslustarfi á tímum samkomutakmarkanna.  Tilraunin felst í því að halda fyrirlestra á Teams.  Fyrirkomulagið er þannig að flutt er erindi 20 -30 mínútna langt og síðan sprell fjörugar umræður um efni erindisins. Reiknað er með klukkustundarlöngum viðburði.  

Félagi okkar Aðalsteinn Sigurgeirsson ætlar að ríða á vaðið með fyrirlestri um þá fræsöfnunarleiðangra  sem að lögðu grunninn að þeirri skógrækt sem við stundum í dag.

Vonandi leggst þetta uppátæki vel í félagsmenn og við vonum að sem flestir geti mætt við skjáinn.  

Kv

Valdi formaður

Fyrir fundarboð í teams má senda póst á Valdi@skogur.is

Categories
Fréttir

Ný stjórn 2020

Aðalfundur Skógfræðingafélagsins var haldinn í gegnum Teams fjarfund þann 7. Október 2020. Félagsmenn á SV- og V-landi tóku við félaginu á aðalfundinum. Stjórn rétt kjörin á fundinum til næstu tveggja ára er skipuð Valdimari Reynissyni sem formanni, Hraundísi Guðmundsdóttur sem ritara og Jóni Auðunni Bogasyni sem gjaldkera, ásamt Sævari Hreiðarssyni til vara. Páll Sigurðsson gekk til liðs við orðanefnd, að öðru leyti voru aðrar nefndir óbreyttar. Fundargerð má finna undir „Skjöl“.

Categories
Fréttir

Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands 2020

Sæl

Vil minna á Aðalfundinn sem verður haldinn í gegnum Teams á miðvikudaginn klukkan 16.30.

Ég mun senda fundarboð á eftir en það skilar sér ekki til ykkar vil ég biðja ykkur og þið hafið hugsað ykkur að vera á fundinum þá vil ég biðja ykkur um að hafa samband.

Meðfylgjandi er dagskrá fundar. Vonandi sé ég sem flest ykkar á fundinum (í gegnum Teams).

Fyrir hönd stjórnar,

 Brynja

Categories
Fréttir

Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands

Sæl

Vegna sérstakra aðstæðna er ekki ennþá búið að halda aðalfund Skógfræðingafélags Íslands 2020.

Því höfum við ákveðið að halda hann á Mógilsá miðvikudaginn 7 október klukkan 16.30.

Þeir sem sjá sér ekki fært að koma upp á Mógilsá verður boðið að vera með á fundinum í gegnum Teamsfundarkerfið, bæði vegna þess hversu staðsetning félagsmanna er dreifð um landið og einnig vegna Covid19 smithættu. Við munum senda nánari leiðbeiningar um Teams fundinn og dagskrá þegar nær dregur.

Nokkrir frá SV og V-landi hafa boðið sig fram til stjórnarsetu en fleiri hafa hug á því væri ég þakklát ef þeir mundu láta mig vita fyrir 30 september næstkomandi, svo hægt verði að útfæra hvernig kostning fer fram fyrir fund.

Fyrir hönd stjórnar

Brynja Hrafnkelsdóttir

Categories
Fréttir

Spennandi námskeið fyrir skógfræðinga

Hefur þú áhuga á að taka þátt 5 daga námskeiði við LbhÍ sem fjallar um sjálfsáningu á skóglausu landi og endurnýjun skóga með sáningum?
Það eru enn 7 sæti laus í þetta námskeið (til að fylla í tvær smárútur).

Skógfræðibraut LbhÍ stendur fyrir námskeiðinu sem verður kennt á Hvanneyri 16-20 september næstkomandi (mið – sunn). Námskeiðið gildir til 2 ECTS háskólaeininga fyrir þá sem kjósa að ljúka öllum verkefnum.
Skógfræðingafélag Íslands hvetur meðlimi félagsins til að sækja þetta spennandi námskeið og mun styrkja þá ef þeir kjósa að gera það. Þáttakendur verða bæði nemendur í skógfræði og starfandi fagfólk úr geiranum.

Heiti námskeiðs:  Forest ecology in a treeless country (Skógvistfræði í skóglausu landi)


Kennari: dr. Dennis Riege, skógvistfræðingur og prófessor á eftirlaunum við University of Maryland í USA.

Tungumál: Enska

Almenn lýsing á námskeiðinu: Íslenskir skógfræðingar hafa á síðustu áratugum náð mjög góðum árangri í nýskógrækt með gróðursettum forræktuðum skógarplöntum. Víða er fjölbreyttari aðferðum beitt við nýliðun skóga á skóglausu landi sem byggja á vistfræðilegri þekkingu. Í þessu námskeiði verður þátttakendum kynntar nýjustu rannsóknir á þessu sviði skógvistfræði, með áherslu á hvernig vistfræðilegir ferlar eins og sjálfsáning, framvinda, samhjálp og samkeppni eru nýtt við nýskógrækt. Ýmsir tilraunareitir og ræktaðir skógar verða heimsóttir og niðurstöður ræddar. Kennarinn er bandarískur vistfræðingur og háskólakennari sem hefur stundað rannsóknir á Íslandi síðustu 18 árin. Námskeiðið er blanda af fræðilegu námskeiði og verklegri þjálfun fyrir nemendur og starfandi skógfræðinga. Farið verður í tvær dagsferðir til að skoða ýmis raunveruleg dæmi í íslenskri náttúru á Vestur-, SV og Suðurlandi.

Námskeiðsgjöld: 37.500 kr (hálft skráningartjald háskólanemenda). Þar innifalið er kennslan, allt kennsluefni og ferðir sem farið verður í, svo og gisting á Hvanneyri í svefnpokaplássi í Gamla skóla, ef bókað er tímalega. Fæði er ekki innifalið, en hægt er að kaupa ½ fæði í mötuneytinu á Hvanneyri.
Skógfræðingafélagið mun styrkja þá félagsmenn sína sem taka námskeiðið, en einnig er hægt að sækja um endurgreiðslu úr endurmenntunarsjóðum stéttarfélaganna fyrir námskeiðsgjöldum og kostnaði.

Skráningarfrestur er til 17 ágúst – en fyrstur kemur/fyrstur fær, þar til fullbókað er í námskeiðið.
Ef þið hafið áhuga þá vinsamlega skráið ykkur sem fyrst með því að senda tölvupóst á mig (brynja@skogur.is) og með cc á Bjarna Diðrik (bjarni@lbhi.is)
 
Fyrir hönd stjórnar,
Brynja

Categories
Fréttir

Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands

Við í stjórninni höfum ákveðið að vegna aðstæðna og samkomubanns sé ráðlegt að fresta aðalfundi Skógfræðingafélags Íslands, sem átti að vera næstkomandi mánudag, um óákveðinn tíma. Ný dagssetning verður auglýst síðar.

Einnig fundaði ferðanefnd Skógfræðingafélagsins í gær og bað mig um að koma eftirfarandi tilkynningu á framfæri:
Ferðanefnd boðar frestun á fyrirhuguðum ferðum Skógfræðingafélagsins um eitt ár.
Fyrsta ferðin sem fara átti í haust til Wales frestast til 2021 (sennilega vors)
Ferðirnar sem fara átti 2021, 2022, og 2023 færast allar um eitt ár.
Í staðinn er verið að skoða þá hugmynd að fara í eina innanlandsferð þetta árið.
Nánar rætt á aðalfundi Skógfræðingafélags Íslands.

En til að enda á jákvæðu nótunum þá er hann Ellert Arnar búinn að útbúa nýja heimasíðu fyrir félagið. Slóðin á hana er http://skogfraedingar.is/ . Síðan er ennþá í vinnslu en margt af því sem er þarna inni var fært af gömlu síðunni, sem ekki hefur verið virk í nokkur ár. Endilega kíkið á hana en allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar. Við munum setja meira um fyrirhugaðar ferðir og fleira þarna inn þegar þar að kemur.



Fyrir hönd stjórnar,
Brynja

Categories
Fréttir

Ný stjórn 2018

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Skógfræðingafélagsins í Gömlu Gróðrastöðinni á Akureyri þann 10. Apríl 2018. Það er hefð fyrir því að við hver stjórnarskipti þá færist „valdið“ í næsta landshluta eftir sólarganginum. Nú var komið að Sunnlendingum. Nýja stjórn skipa Brynja Hrafnkelsdóttir (formaður), Hrönn Guðmundsdóttir (gjaldkeri), Úlfur Óskarsson (ritari) og Valgerður Erlingsdóttir (varamaður). Fundargerð aðalfundar er að finna á síðunni „Um félagið“ undir „Skjöl“.

Categories
Fréttir

Ný stjórn 2016

22.03.2016. Ný stjórn var kosin á aðalfundi Skógfræðingafélagsins á Patreksfirði þann 15. mars s.l. Það er hefð fyrir því að við hver stjórnarskipti þá færist „valdið“ í næsta landshluta eftir sólarganginum. Nú var komið að Austlendingum. Nýja stjórn skipa Lárus Heiðarsson (formaður), Else Möller (gjaldkeri), Agnes Brá Birgisdóttir (ritari) og Jón Loftsson (varamaður). Fundargerð aðalfundar er að finna á síðunni „Um félagið“.