Gunnarssjóður

Gunnar Freysteinsson skógfræðingur, sem var fæddur 27. apríl 1970, lést í bílslysi 5. júlí 1998. Hann var sonur Freysteins Sigurðssonar jarðfræðings og Ingibjargar Sveinsdóttur lyfjafræðings. Systir hans er Ragnhildur landfræðingur og starfsmaður Skógræktarfélags Íslands til margra ára, en bróðir Gunnars var Sigurður tölvunarfræðingur sem lést 1997.

Gunnar ólst upp til fimm ára aldurs í Kiel í Þýskalandi, en flutti eftir það heim með foreldrum sínum í Kópavog þar sem hann átti heima öll sín æskuár. Hann varð stúdent frá MK, en lauk síðan kandidatsprófi frá Landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi árið 1995.

Eftir heimkomu að loknu námi starfaði hann hjá Skógræktarfélagi Íslands, en 1996  hóf hann störf hjá Skógrækt ríkisins þar sem hann starfaði m.a. að undirbúningi Suðurlandsskóga. Gunnar hafði nýhafið störf hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins þegar hann lést.

Gunnar Freysteinsson varð strax mikill vísindamaður innan skógargeirans og hafði aflað sér mikillar þekkingar á skömmum tíma. Þegar Gunnar lést  var um hann skrifað „ að ein skærasta vonarstjarna íslenskrar skógræktar væri fallin frá“.  En ein besta lýsing á Gunnari kom fram í minningargrein um hann sem Aðalsteinn Sigurgeirsson skrifaði í Morgunblaðið 17. júlí 1998, en þar segir orðrétt „á stuttum en glæstum starfsferli tókst Gunnari Freysteinssyni, í krafti mannkosta sinna, starfsorku og fjölbreyttra hæfileika, að fylla þann flokk manna sem unnið hafa skógrækt á Íslandi mest gagn“.

Í lokaritgerð hans til kandidatsgráðu við landbúnaðarháskólann í Ási í Noregi sýndi Gunnar fram á að vöxtur sitkagrenis á landinu sunnanverðu væri víða sambærilegur við það sem best gerist í skógum Skandinavíu. Þessar upplýsingar nýttust vel þegar farið var að vinna að  hugmyndum um áætlun um stóraukna ræktun skóga á Suðurlandi, en sú áætlunin varð að lagafrumvarpi um Suðurlandsskóga, sem samþykkt var á Alþingi vorið 1997.

Gunnar vann ekki einvörðungu að skógræktarmálum, en hann hafði óbilandi áhuga á sögu og landafræði, t.a.m. hafa fáir íslendingar kynnt sér betur vopnasögu Evrópu. Hann vissi nákvæmlega hvaða vopn voru notuð af hvaða herjum og hvenær og í hvað orrustum. En mestum frítíma sínum síðustu ár ævi sinnar  notaði hann til að grúska í mannkynssögunni þar sem hann hafði öðlast yfirgripsmikla þekkingu, enda hafði komið auga á nokkrar staðreyndarvillur í þeirri ágætu sögu.

Að Gunnari gengnum voru margir félagar og vinir, ásamt fjölskyldur hans, sem vildu koma upp  minningarlundi um þennan elskaða vin og félaga. Niðurstaðan varð sú að fundinn var staður í Haukadalsskógi þar sem plantaðar voru ýmsar tegundir af eðaltrjám. Einnig vann Guðjón Kristinsson útskurðarmeistari að lífssúlu (totemsúlu) um Gunnar sem reist var í lundinum fallega.

Allt þetta kostaði nokkra fjármuni sem fjölskyldan lagði til ásamt nokkrum vinum. Að loknum framkvæmdum í minningarlundinum í Haukadal kom í ljós að ríflega hefur verið lagt til af peningum. Í samráði við fjölskylduna og góðan vin Gunnars, Sigrúnu Theódórsdóttur sem hélt utanum fjármálin, var ákveðið að Félag skógfræðinga fengi þennan sjóð til umráða. Endurmenntun skógfæðinga skyldi hafa forgang við úthlutun fjárins úr Gunnarssjóði.

Björn Bjarndal Jónsson