Categories
Spurt og Svarað

Fræðsla og menntun í skógræktargeiranum á Íslandi

Fræðsla og menntun í skógræktargeiranum á Íslandi

Samantekt skrifuð af Bjarna Diðrik Sigurðssyni, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands

Framtíðar árangur skógræktar hérlendis byggist að stórum hluta á því að faglega sé staðið að málum sem varða skipulagningu, umhirðu og nýtingu skóglenda landsins, bæði náttúruskóga og nýskóga. Tryggja þarf að allir þátttakendur geirans hafi aðgang að menntun og fræðslu við hæfi.

Menntunar og fræðslumál Landshlutaverkefnanna

Mikill kraftur og nýsköpun hefur verið í starfi innan skógræktargeirans sem lýtur að fræðslu og menntunarmálum, og eru Landshlutabundnu verkefnin þar ekki undanskilin. Skipta má fræðslu- og menntunarstarfi þeirra í þrennt:

1. Skipulagning svokallaðra grunnnámskeiða í skógrækt og skjólbeltarækt fyrir skógarbændur.

2. Samstarf við Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans, Skógrækt ríkisins, Landssambands skógareigenda og Landgræðslu ríkisins að standa fyrir skógræktarnámi (námskeiðaröð) fyrir skógarbændur sem nefnist Grænni skógar I og Grænni skógar II

3. Skipulagning faglegra endurmenntunarnámskeiða fyrir starfsmenn sína, bæði erlendis og hér innanlands, í samstarfi við ýmsa aðila.

1. GRUNNNÁMSKEIÐIN:

Landshlutaverkefnin leggja mesta áherslu á að halda reglulega grunnnámskeið í skógrækt og skjólbeltarækt, þar sem starfsmenn þeirra veita nýjum skógarbændum fræðslu og leiðbeiningar um hvernig best verður að verki staðið. Engin ákvæði eru þó í lögum sem skylda skógarbændur til að sækja sér slíka fræðslu áður en þeir hefja skógrækt, en reynslan er sú að langflestir skógarbændur sækjast eftir námskeiðum og fræðslu.

2. GRÆNNI SKÓGAR:

Hluti skógarbænda verkefnanna hefur einnig tekið þátt í Grænni skógum I og Grænni skógum II, sem hvor um sig er tveggja ára námskeiðsröð (17 helgarnámskeið) sem Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans heldur í landshlutunum í nánu samstafi við verkefnin (sérstök námskeiðsröð fyrir hvern landshluta). Þar sem skógarbændur í gegnum umfangsmikið skógræktarnám á framhaldsskólastigi og þar sem flestir best menntuðu skógfræðingar verkefnanna og annarra stofnana/félaga koma að kennslunni.

Stór hópur skógarbænda hefur útskrifast í öllum landshlutum úr Grænni skógum I, eða um 130 manns. Grænni skógar II framhaldsnámskeiðin hófust nýlega, en um 20 manns hafa þegar útskrifast í þeim. Gera má ráð fyrir að sett verði af stað fleiri námskeiðaraðir í Grænni skógum á næstunni. Greinilegt er að árangur þeirra skógarbænda sem sótt hafa Grænni skóga námskeiðin er betri en hjá öðrum og undirstrikar mikilvægi þess að öflugu fræðslustarfi verði haldið áfram á meðal skógarbænda. Það má geta þess að erlendir gestir, t.d. frá Skotlandi, Írlandi, Danmörku og Noregi hafa allir hrósað íslendingum fyrir Grænni skóga, og segja að það hafi verið stærstu mistök í þeirra löndum að setja ekki upp slíkt nám fyrir landeigendur í sínum löndum um leið og nýskógrækt jókst þar.

Þeir skógarbændur sem taka þátt í þessu námi og greiða stærstan hluta kostnaðar sjálfir. Framleiðnisjóður landbúnaðarins styrkti til skamms tíma þessi námskeið myndarlega, en eftir að endurmenntunarmál innan Bændasamtakanna voru færð í annan farveg hefur kostnaður bændanna aukist talsvert við þátttöku í þessum námskeiðum. Þetta hefur þó ekki þýtt að þau hafi lagst af og sá hluti bændanna sem tekur þátt í þeim gefur þeim mjög góða einkunn. Það þyrfti að auka þann hluta skógarbænda sem taka þetta nám.

3. ÖNNUR FAGLEG NÁMSKEIÐ:

Verkefnin hafa sjálf staðið fyrir faglegum námskeiðum fyrir starfsmenn sína, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, oft í samstarfi við aðra innlenda og erlenda aðila. Hjá Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands hefur jafnframt verið boðið upp á töluvert af öðrum fagnámskeiðum sem hafa hentað skógarbændum og hafa verið opinn fyrir almenning. Einnig hafa Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins og Skógræktarfélögin staðið fyrir slíkum námskeiðum.

Skógrækt ríkisins og nokkur skógræktarfélög hafa átt formlegt samstarf við grunnskóla vítt og breitt um landið þar sem boðið hefur verið upp á skógræktartengda fræðslu og útiveru fyrir kennara og skólabörn.

Formleg menntun í skógfræði og skyldum greinum á Íslandi

Til skamms tíma þurftu allir íslenskir skógfræðingar og skógræktartæknar að sækja menntun sína erlendis. Flestir fóru til Noregs, en Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Bretland og Kanada urðu einnig fyrir valinu hjá ýmsum, auk fleiri landa. Það að svo víða var leitað menntunar útskýrir örugglega að hluta þá miklu gerjun og kraft sem einkennt hefur þennan hóp. Það hafa hinsvegar ávallt verið fremur fáir einstaklingar sem hafa lagt í slíkt langskólanám erlendis, og þegar geirinn stækkaði varð nauðsynlegt að koma á formlegri menntun á þessu sviði hér innanlands.

Hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi hefur síðan 2003 verið boðið upp á tveggja ára starfsnám (iðnnám) á framhaldsskólastigi í skógræktartækni. Þar fá nemendur trausta undirstöðu og þjálfun sem lýtur að nýskógrækt og umhirðu skóglenda. Nú er verið að breyta framhaldsskólalögum þannig að sá möguleiki opnast að þeir sem ljúka þessu námi útskrifist með tvöfalda námsgráðu, þ.e. stúdentspróf frá þeim framhaldsskóla sem þeir hafa tekið fyrstu tvö árin og með starfsmenntagráðu í skógræktartækni frá Reykjum. Það er fyrirséð að þessi breyting getur aukið á vinsældir þessa náms í framtíðinni, en nú hafa 3-5 nemendur útskrifast úr þessu námi annað hvert ár. Það mætti skerpa á því að þeir sem hafa lokið slíkri formlegri starfsmenntun gangi fyrir þegar bæði störf við skógarumhirðu og útboð í slík verk eru auglýst.

Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri býður einnig upp á þriggja ára grunnnám á háskólastigi í skógfræði og landgræðslu þar sem nemendur geta útskrifast með B.S. gráðu í landgræðslufræðum eða skógfræði. Bæði er hægt að taka þetta nám í staðarnámi eða sem fjarnám með lágmarks mætingarskyldu. Þetta er þverfaglegt nám sem leggur áherslu á skógfræði, raunvísindi, skipulag, landslag og rekstrarfræði. Þeir sem hafa lokið þessu námi hafa ýmist hafið fagleg störf innan geirans, farið í framhaldsnám (erlendis eða innanlands) eða stofnað sín eigin verktakafyrirtæki. Alls útskrifast nú á bilinu 3-6 nemendur á ári með þessa menntun.

Eftir því sem skógræktargeirinn á Íslandi vex og verkefnum fjölgar er jafnframt mikilvægt að hugað sé að jafnri nýliðun menntaðs fagfólks sem kemur til starfa innan Landshlutaverkefnanna og annarra fagaðila og hefur þá þekkingu og innsýn sem nauðsynleg er til að nýsköpun í nýtingu og meðferð íslenskra skóglenda aukist í takt í takt við aukna ræktun.