Hér verður til safn af gömlum frétttum frá félaginu…
07.04.2015. Aðalfundur Skógfræðingafélagsins var haldinn á Hótel Borgarnesi þann 10. mars s.l. Fundargerð aðalfundar er að finna undir flipanum „Skjöl“.
26.03.2014.Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands haldinn á Selfossi 11. mars 2014 samþykkti eftir taldar ályktanir:
1. Ályktun: Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands, haldinn á Selfossi 11. mars 2014 krefst þess að sett verði í samninga um ríkisstyrkta skógrækt, í væntanlega reglugerð um Landshlutaverkefnin í skógrækt og í væntanleg ný lög, ákvæði þess efnis að skógfræðingar skuli gera skógræktaráætlanir.
Greinargerð:
Forsenda fyrir góðum árangri í nýræktun, meðferð og nýtingu skóga er að ákvarðanir séu teknar af fólki með þekkingu á viðfangsefninu. Í tilviki skógræktar er besta tryggingin fyrir því að svo verði sú að skógfræðingar geri skógræktaráætlanir. Með hugtakinu „skógfræðingur“ er átt við einstakling með viðurkennda háskólagráðu í skógfræði. Með hugtakinu „skógræktaráætlanir“ er átt við áætlanir um nýræktun (ræktunaráætlanir), umhirðu (meðhöndlunaráætlanir), grisjun, fellingu og endurnýjun skóga (nýtingaráætlanir).
Í upphafsáætlunum og eldri samningum sumra landshlutaverkefnanna í skógrækt voru ákvæði þess efnis að skógfræðingar skuli gera ræktunaráætlanir. Í endurskoðun og samræmingu samninganna hefur þessu verið sleppt. Í drögum að reglugerð um Landshlutaverkefnin kemur ekki fram að skógfræðingar skuli gera skógræktaráætlanir. Þarna er ekki nægilega hugað að faglegum vinnubrögðum um þætti í áætlunum svo sem ákvörðunum um tegundaval, jarðvinnslu, grisjunarmagn og endurnýjum skógarins svo dæmi séu nefnd. Þetta þarf að lagfæra í samningum Landshlutaverkefnanna strax og setja inn í reglugerðina. Þegar kemur að endurskoðun laga þarf svo að lögleiða að skógfræðingar skuli koma að gerð skógræktaráætlana. Jafnframt verði því haldið til haga við endurskoðun skógræktarlaga að lögvernda starfsheitið skógfræðingur.
2. Ályktun: Aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands, haldinn á Selfossi 11. mars 2014, styður eindregið þá tillögu umhverfis- og auðlindamálaráðherra, að taka náttúruverndarlög sem ganga áttu í gildi þann 1. apríl n.k. til gagngerrar endurskoðunar. Félagið vísar til fyrri umsagna sinna og annarra fagaðila í skógrækt um lögin á meðan þau voru til umfjöllunar. Félagið lýsir sig reiðubúið til að vinna með stjórnvöldum að bættri löggjöf á sviði skógarmála, náttúru- og umhverfisverndar og bendir á að fyrstu náttúrverndarlögin voru „Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ sem samþykkt voru af Alþingi árið 1907. Skógargeirinn býr því að langri reynslu um hvernig virkja má þjóðfélagið til góðra verka.
Eftir fundinn voru ályktanirnar voru sendar á nefndir, stofnanir og einstaklinga sem fjalla um þau mál sem ályktanirnar snerta.
05.032014. Næsti aðalfundur Skógfræðingafélags Íslands verður haldinn á Hótel Selfossi kl. 20:30 þann 11. mars 2014. Allir félagsmenn eru boðnir velkomnir.
04.03.2014. Fjögur námskeið hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur mars, apríl, ágúst og október 2014. Upplýsingar & Skráning: Else Möller, nem.elsem@lbhi.is , 8670527 f.h.Skrfr. saevar@heidmork.is
1. Fjárhagsáætlun fyrir jólatrjáaræktun
Hvernig settt er upp fjárhagsáætlun fyrir jólatrjáaræktun og haldið utan um kostnað og tekjur frá upphaf til enda ræktunarferlisins.
Kennari: Jóhanna Lind Elísdóttir frá RLI
Dagsetning: 11. mars frá kl. 13-17 á Elliðavatni hjá Skógræktarfélagi Reykjavikur í Heiðmörk. Kostnaður: 5000 – Kaffi og bakkelsi innifalið
2. Formun jólatráa, umhirða og klipping
Aðferðir við að forma og laga jólatré til að bæta útlit, auka gæði og nýtingarhlutfall.
Kennari: Marianne Lyhne frá Skov og Landskab, Nödebo Danmark
Dagsetning: 7. apríl frá 10-16 á Elliðavatni hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk
Kostnaður: 5000 – innifalið > Súpa og brauð í hádeginu + Kaffi & bakkelsi
3. Flokkun, framsetning og samskipti við söluaðila
Hvernig tré eru flokkuð eftir ákveðnum stöðlum, val, merking og skráning á trjám fyrir sölu. Markaðssetning, sala og samskipti við söluaðila.
Kennari: Else Möller, skógfræðingur
Dagsetning: 28. águst 2014 frá kl. 10-16 á Elliðavatni hjá Skógræktarfélagi Reykjavikur í Heiðmörk
Kostnaður: 5000 – innifalið > Súpa og brauð í hádeginu + Kaffi & bakkelsi
4. Kransagerð úr náttúrulegum efniviði
Sýnikennsla í gerð kransa (haustkransar, jólakransar) með efni úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum. Könglakransar, grenikransar og greinakransar. Þátttakendur fá tækifæri til að binda sína eigin kransa. Þátttakendur mega gjarnan koma með eitthvert efni með sér eins og greinar og köngla.
Kennari: Steinar Björgvinsson skógfræðingur og blómaskreytir
Dagsetning: 9. október frá kl. 10-17 á Elliðavatni hjá Skógræktarfélagi Reykjavikur í Heiðmörk Kostnaður: 5000 – innifalið > Súpa og brauð í hádeginu + Kaffi & bakkelsi
10.09.2012. Heimasíða Skógfræðingafélagsins – www.skogfraedi.is – endurvakin – Eftir að hafa íhugað að setja upp alveg nýja heimasíðu fyrir félagið ákvað stjórn félagsins að endunýta fremur „gömlu“ síðuna áfram. Í staðinn verður reynt að auka lífleika síðunnar með því að setja upp ritnefnd sem bæði stuðlar að auknum fagtengdum fréttaflutnini í öllum fjölmiðlum og útbýr fréttir og annað efni sem birtist hér eftir á heimasíðu félagsins. Samþykkt stjórnar um þetta mál var eftirfarandi: „Ritnefnd: Hlutverk nefndarinnar verður að kynna skógrækt og og menntun skógfræðinga á jákvæðan og upplýsandi hátt með hliðsjón af markmiðum Skógfræðingafélags Íslands í grein 2 í lögum félagsins. Ritnefnd hafi umsjón með greinaskrifum fyrir almenning og skógræktaráhugafólk og fái félagsmenn til að skrifa stuttar greinar um sérsvið sitt og annað sem ritnefnd telur líklegt til að auka jákvæða umræðu um skógrækt. Greinarnar verði birtar í fjölmiðlum og á heimasíðu félagsins eftir því sem ritnefnd ákveður frekar. Tillaga um ritnefnd: Brynjar Skúlason, formaður, Þröstur Eysteinsson og Björgvin Örn Eggertsson, auk Bjarna Diðriks sem umsjónarmanns heimasíðu og Lilju Magnúsdóttur, sem tengiliðar við stjórn félagsins, var einróma samþykkt.“
3. febrúar 2011 Hópur vistfræðinga á villigötum – Frétt frá stjórn Skógfræðingafélags Íslands
Fylgismenn og höfundar frumvarps um breytingar á náttúruverndarlögum koma nú fram og saka „tiltekin félagasamtök“ og „talsmenn skógræktar“ um hörð og ofsafengin viðbrögð við áðurnefndu lagafrumvarpi. Af því tilefni vill Skógfræðingafélag Íslands benda á málefnalegar og vandaðar umsagnir fjölmargra aðila, þar á meðal skógræktarfélaga og Skógræktar ríkisins, sem nálgast má hér.
Ástæða er til að fagna opinni og hreinskiptinni umræðu um framkomin drög að breytingum á lögum um náttúruvernd. Talsmenn frumvarpsins úr röðum vistfræðinga sem snúist hafa því til varnar benda nú á kanínur, spánarsnigla og minka sem dæmi um „ágengar framandi lífverur“ og þá „gríðarlegu ógn“ sem af slíkum lífverum stafar. Einn þeirra spyr jafnframt hvort varúð geti verið öfgafull. Því er fljótsvarað. Umrætt frumvarp tekur á engan hátt á innflutningi ofangreindra lífvera. Í stað þess að framfylgt sé sértækum vörnum til að sporna við innflutningi á þekktum plágum, sjúkdómum og tegundum sem valdið geta tjóni, er varúðarreglunni beint gegn aðfluttum tegundum og framandleika almennt. Það er gott dæmi um að varúðarreglan sé komin út í öfgar og missi marks. Varúðarreglu umhverfisréttar verður nefnilega að beita af mikilli varúð.
Fyrir hönd stjórnar Skógfræðingafélags Íslands,
Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, formaður, Gsm 898 7862
Arnór Snorrason, gjaldkeri
Brynjólfur Jónsson, ritari
27. janúar 2011 Umsögn stjórnar um drög að frumvarpi til laga um breytingar á Náttúruverndarlögum
Hér undir er umsögn stjórnar Skógfræðingafélagsins um frumvarp til breyttra Náttúruverndarlaga, en frumvarpið hefur vakið talsverða umræðu innan skógræktar-, garðyrkju- og landbúnaðargeirans.
27. júní 2010 Gunnarshátíð í Haukadal
Í tilefni þess að Gunnar Freysteinsson, skógfræðingur, hefði orðið fertugur í ár boða Skógfræðingafélag Íslands, vinir og vandamenn til Gunnarshátíðar í Haukadal í Biskupstungum sunnudaginn 27. júní. Gunnar lést af slysförum árið 1998. Allir eru velkomnir á hátíðina. Gestir eru beðnir um að hafa með sér trjá- eða greinaklippur, skóflur og fötur, sem og það nesti sem þeir vilja, en ketilkaffi verður á hlóðum á staðnum. Allir eru hvattir til að hafa með sér trjáplöntu, helst af fágætri tegund, hvort sem er barr- eða lauftré. Það má benda á að Óli Njáls í gróðrarstöðinni Nátthaga í Ölfusi ku vera með lista yfir þær trjátegundir sem þegar hafa verið gróðursettar í Gunnarslund og hefur mikið úrval af tegundum sem ekki finnast þar enn.
Dagskrá:
11:00 – Gróðursetning og umhirða í Gunnarslundi.
13:00 – Skemmtun
Setning og ávarp: Aðalsteinn Sigurgeirsson, formaður Skógfræðingafélags Íslands.
Hugvekja sr. Sigvalda Ásgeirssonar, skógarprests
Skógarleikar (fyrir alla aldurshópa)
Samkomuslit: Ragnhildur Freysteinsdóttir
Tónlist: Nikulás Magnússon, harmonikka. Jón Ásgeir Jónsson, gítar.
18. júní 2010 Í dag varði Edda S. Oddsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, doktorsritgerð sína í jarðvegslíffræði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Doktorsritgerð Eddu fjallar um hagnýtingu jarðvegssveppa í gróðrarstöð eða við gróðursetningu til að draga úr afföllum skógarplantna af völdum ranabjöllu. Niðurstöður hennar sýna að með því að smita skógarplöntur með jarðvegsörverum má draga umtalsvert úr afföllum á nýgróðursettum plöntum og skemmdum af völdum ranabjöllu.
4. júní 2010 Í dag fjölgaði duglega í stétt skógfræðinga. Fimm ungir og efnilegir skógfræðingar útskrifuðust með bakkalárgráðu (B.S.) í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta eru þau:
Else Möller frá Vopnafirði
Lilja Magnúsdóttir frá Tálknafirði
Sighvatur Jón Þórarinsson frá Dýrafirði
Steinar Björgvinsson frá Hafnarfirði
Sæmundur Þorvaldsson frá Dýrafirði
Að auki útskrifaðist Helena Marta Stefánsdóttir frá Hafnarfirði með rannsóknatengda meistaragráðu (M.S.) í skógfræði.
24. mars 2010 Ný stjórn tók við félaginu. Nú var komið að skógfræðingum á SV-horninu að stýra félaginu. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Mógilsár, er nýr formaður, Arnór Snorrason, Mógilsá, gjaldkeri, Brynjólfur Jónsson, Skógræktarfélagi Íslands, ritari, og Þorbergur Hjalti Jónsson, Mógilsá, varamaður. Ný stjórn boðaði að hún hyggist starfa af krafti og auka sýnileika félagsins. Bæði er ætlunin að standa fyrir skipulögðum skógarferðum fyrir félagsmenn og virkja félagið meira í umræðu um fagleg málefni.
24. febrúar 2010 Fagráðstefna skógræktar 2010 verður haldin á Hótel Stykkishólmi dagana 24.-26. mars, n.k. Ráðstefnan er árleg – og hefð er fyrir því að hún flakkar réttsælis um landið og er alltaf haldin á nýjum og nýjum stöðum. Að þessu sinni verður hún sem sagt í Stykkishólmi. Skipuleggjendur eru:
• Vesturlandsskógar: Sigvaldi Ásgeirsson og Guðmundur Sigurðsson,
• Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá: Aðalsteinn Sigurgeirsson og Ólafur Eggertsson,
• Skógræktarfélag Íslands: Brynjólfur Jónsson og Einar Gunnarsson,
• Landssamtök íslenskra skógareigenda: Björn B. Jónsson,
• Landbúnaðarháskóli Íslands: Bjarni D. Sigurðsson.
Skipulagsnefnd óskar eftir erindum (15+5 mín) og veggspjöldum á fagfundinn á föstudeginum 26. Áhugasamir sendi tillögur á fulltrúa í skipulagsnefnd fyrir 5. mars n.k. Viðkomandi verða látnir vita fyrir 15. mars hvort þeir fá úthlutað erindi eða veggspjaldi.
25. janúar 2010 Í dag var heimasíða Skógfræðingafélags Íslands (www.skogfraedi.is) opnuð formlega. Það er von stjórnar félagsins að hún muni nýtast félagsmönnum og öðrum sem áhuga hafa á málefnum skógfræðinga. Það er hverju félagi nauðsynlegt að hafa einhvern miðil til að geta átt stöðug og góð samskipti bæði við félagsmenn sína og aðra sem félagið vill ná til. Skortur á slíkum miðli hefur staðið annars góðu starfi skógfræðingafélagsins fyrir þrifum.
20. janúar 2010. Formlegt erindi hefur borist félaginu um þáttöku í útgáfu á nýju Búfræðingatali.
Björgvin átti fund í húsnæði Bændasamtaka Íslands með Einari frá Skörðugili. Hann er að vinna að undirbúningi að útgáfu næsta Búfræðingatals og hefur boðið Skógfræðingafélaginu að taka þátt í útgáfunni, og þar með að fjallað yrði um alla skógfræðinga frá upphafi í bókinni, sem og aðra íslendinga sem lokið hafa háskólanámi frá landbúnaðarháskólum hér og erlendis. Útgáfa bókarinnar mun kosta um 5 milljónir og munu þeir sem að henni standa greiða kostnaðinn sem verður umfram styrki sem fást til útgáfunnar. Kostnaður er enn óljós. Miðað við að skógfræðingar séu um 50 talsins (miðað við a.m.k. BS gráðu) þá myndi félagið þurfa að greiða um 10% kostnaðar umfram styrki (allt að 500.000 kr.). Stjórn sér ekki fram á að félagið hafi fjárhagslegt bolmagn til þess nema að félögum fjölgi og þeir standi betur í skilum með árgjöld sín. Stjórn telur hinsvegar einnig að þátttaka í útgáfu slíks rits um alla skógfræðinga, lífs og liðna, þjóni vel markmiðum félagsins – en að það þyrfti þá að fá félagsmenn til að greiða sérstaklega fyrir þátttöku í verkefninu. Björgvin ætlar að afla meiri upplýsinga um málið og stjórn stefnir síðan á að kynna málið fyrir félagsmönnum á næsta aðalfundi og láta fundinn ákveða hvert framhaldið verður.
15. september 2009. Félagið stóð fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir starfandi skógfræðinga um jarðvegsfræði í samstarfi við Endurmenntunardeild LbhÍ. Kennari var próf. Þorsteinn Guðmundsson. Þátttakendur báru námskeiðinu vel söguna.
26. júní 2009.Fjölskylduferð var farin í Haukadal þar sem Gunnarslundur var heimsóttur og skógurinn skoðaður undir leiðsögn Björgvins Eggertssonar og Böðvars Guðmundssonar. Mætingin hefði mátt vera betri bæði í gönguna og í útileguna, en þó tosaðist heildartala þátttakenda í göngunni upp í annan tuginn. Á undirsíðunni „Myndir“ má skoða myndir sem teknar voru við þetta tilfelli.
15. maí 2009. Félagið stóð fyrir endurmenntunarnámskeiði fyrir starfandi skógfræðinga og aðra um notkun fjölbreytugreininga í úrvinnslu rannsóknaniðurstaðna í samvinnu við Endurmenntunardeild LbhÍ. Þetta eru sérhæfðar aðferðir sem beitt er þegar breytingar á tegundasamsetningu lífvera eru rannsakaðar, oft í tengslum við t.d. skilyrði til skógræktar eða breytingar á loftslagi. Leiðbeinandinn var frá Tékklandi. Þeir sem sóttu námskeiðið sögðu að það hefði verið afar gagnlegt fyrir þá sem vinna að þessháttar rannsóknum. Til gamans má geta þess að þátttakendur á námskeiðinu komu frá ólíkum fagaðilum; þarna voru einnig sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnuninni, Landgræðslunni, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Hólaskóla og Háskólanum á Akureyri, sem hver um sig var að gera rannsóknir á ólíkum lífverum. Námskeiðið nýttist því greinilega vel, þó að ekki hafi öll kvikindin barr eða lauf…